139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

undirbúningur fangelsisbyggingar.

[15:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Fregnir hafa borist af því að dómsmálaráðuneytið hafi hafið undirbúning byggingar fangelsis á Hólmsheiði. Væri það að sönnu jákvætt fyrir íslenska arkitekta og byggingariðnaðinn ef slík innspýting kæmi á íslenska markaðinn. Vekur það því nokkra furðu að fá fréttir af því að dönsk arkitektastofa hafi fengið þetta verk í hendur og að um verulega fjármuni sé þar að tefla.

Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. dómsmálaráðherra þriggja spurninga.

Hvernig má það vera að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn séu að færa verkefni á sviði arkitektúrs og hönnunar til útlanda þegar 60% íslenskra arkitekta eru atvinnulaus? Er ríkisstjórnin með þessu að leggja út í kostnað við að flytja störf burt frá Íslandi? Í framhaldi af því: Hvað er sá kostnaður mikill?