139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

undirbúningur fangelsisbyggingar.

[15:21]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ef við værum að hefja þessa framkvæmd núna og teikningu hússins mundum við ekki leita út fyrir landsteinana. Ég hygg að forveri minn í embætti dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hefði ekki heldur gert það. En það var gert. Og það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að annað er upp á teningnum nú en áður var og ég held að við séum öll sammála um að það sé mikilvægt að leita til innlendra aðila um arkitektahönnun og það hefði án efa verið gert hver svo sem sæti í mínu embætti. En þetta var ákvörðun sem var tekin á sínum tíma og var sett í framkvæmd þannig að þetta er því miður búið spil. (ÓN: Hvað kostar það?) Ég er ekki með upplýsingar um (Gripið fram í.) kostnað nákvæmlega en ég hefði haldið að hv. þingmaður mundi sýna ögn meiri hógværð þegar á daginn kemur að það var hennar eigin flokksbróðir sem tók ákvörðun um þetta. Nú kemur hún í (Forseti hringir.) ræðustól til að hneykslast yfir málinu (Gripið fram í: Ég geri …) en ég er einfaldlega að upplýsa þingið um að þetta er ákvörðun sem var tekin hér fyrr á tíð þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins sat í dómsmálaráðuneytinu. Það var hans ákvörðun (Forseti hringir.) að leita til danskrar arkitektastofu.