139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

bygging nýs fangelsis.

[15:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér einfaldlega ekki nógu góð svör hjá hæstv. ráðherra. Er það virkilega tilfellið að ríkisvaldið sé búið að ákveða að það sé skynsamlegast að byggja á Hólmsheiði þrátt fyrir að skýrslur liðinna ára hafi sýnt fram á að mesta hagræðingin, ódýrast, væri að byggja við Litla-Hraun við Eyrarbakka í Sveitarfélaginu Árborg? Er það virkilega svo að samt sem áður haldi ríkisstjórnin áfram að dæla fjármunum út í staðinn fyrir að dæla þeim fjármunum inn í íslenskt hagkerfi þar sem þeir margfaldast? Á að dæla þeim út úr kerfinu til danskrar arkitektastofu þar sem er verið að hanna byggingu nýs fangelsis? Eiga önnur byggðarlög síðan þess kost að eyða sínum fjármunum, sveitarfélaganna, í að keppa við ríkisvaldið sem bæði tekur ákvörðunina um hvar það á að vera, hver hannar og hvernig það lítur út? Síðan á það að velja.

Þetta hefði einhvern tíma ekki þótt sérstaklega smart, ekki sérstaklega lýðræðislegt og að það hefði ekkert með jafnræði að gera.