139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hvet forseta til að fylgja þessum málum eftir. Hér kom hæstv. ráðherra og er það vel. Hann lofaði þingheimi og hv. þm. Jóni Gunnarssyni að svara þeirri fyrirspurn sem hann átti að vera búinn að svara skriflega fyrir löngu. Ég vek athygli á því að hv. þm. Jón Gunnarsson er búinn að fylgja þessu máli eftir frá 2. september á þessu ári. Við sjáum að vísu enn þá grófari dæmi um að fyrirspurnum sé ekki svarað því að sama máli gegnir um mál sem ég tók sérstaklega undir sem snýr að vísu ekki að þessum hæstv. ráðherra heldur að hvorki meira né minna en að hæstv. forsætisráðherra. Fyrst kom fram fyrirspurn um mál sem ég tók upp og bað hæstv. forseta að hlutast til um 16. júní á þessu ári — 16. júní. Engin svör hafa enn fengist önnur en fullkominn útúrsnúningur.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki sæmandi og þingið verður að fara að standa plikt sína gagnvart framkvæmdarvaldinu og fá fram þau svör sem þingmenn biðja um.