139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[15:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál sem nokkuð hefur verið í umræðunni og hefur á sér margar hliðar. Ég ætla að reyna að einangra umræðuna nokkuð en áskil mér allan rétt til að fylgja málinu enn frekar eftir og mun gera það.

Við þekkjum það að hér samþykktu ríkisstjórnarflokkarnir að setja af stað stofnun sem heitir Bankasýsla ríkisins. Þegar menn lögðu í þá vegferð var gert ráð fyrir að Bankasýslan ætti að halda utan um meirihlutaeign ríkisins í þrem bönkum en niðurstaðan varð sú að hún heldur fyrst og fremst utan um eignarhlut í einum banka, Landsbankanum. Röksemdirnar voru einfaldlega þær að þetta væri mjög mikilvægt til að halda faglegum vinnubrögðum og til að ráðherra hefði ekki bein áhrif á daglegan rekstur bankanna. Við getum þá kannski gagnályktað sem svo að ef það er ekki sérstök stofnun utan um eignarhluti ríkisins muni hæstv. ráðherra hafa bein afskipti af viðkomandi stofnun. Látum það liggja milli hluta, það er áhugaverð umræða ein og sér, en til að fylgja því eftir að faglegum vinnubrögðum yrði beitt voru sett sérstök lög, eðli málsins samkvæmt, um stofnunina og hvorki meira né minna ein eigendastefna ríkisins sem kvað m.a. á um að settar yrðu sérstakar verklagsreglur sem hver og einn banki skyldi fara eftir.

Í markmiðslýsingu laganna segir, með leyfi forseta, að tryggja eigi „gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings“. Þar segir líka að Bankasýslan eigi að hafa eftirlit með framkvæmd eigendastefnu ríkisins eins og hún er á hverjum tíma.

Sömuleiðis segir, með leyfi forseta:

„Ákveði fjármálaráðherra í undantekningartilvikum að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál getur stjórnin tjáð ráðherra afstöðu sína til þeirra áður en við þeim er orðið.“

Nú er alveg ljóst að reglurnar voru brotnar í Vestia-málinu. Eignirnar sem um er að ræða, sem voru seldar úr Landsbankanum, voru ekki auglýstar til sölu. Það var ekki farið eftir verklagsreglum sem voru á heimasíðunni, heldur var henni í rauninni lokað eða verklagsreglurnar fjarlægðar meðan á þessum viðskiptum stóð.

Það hefur komið fram í hv. viðskiptanefnd að starfsmönnum Bankasýslunnar var fullkunnugt um að það ætti að gera þetta og forstöðumaðurinn þrætti ekki í viðtölum við fjölmiðla fyrir það að verklagsreglur hefðu verið virtar að vettugi en taldi að vegna þess að um væri að ræða lífeyrissjóðina væri það í lagi. Það stendur hins vegar hvergi í lögunum að það sé í lagi að fara á skjön við lögin og brjóta verklagsreglur ef um lífeyrissjóði er að ræða.

Síðan gerist það að Landsbankinn mun eignast 30% í Framtakssjóðnum sem ekki hefur farið mikið fyrir í umræðunni. Viðskiptin fóru þannig fram að Framtakssjóðurinn setti 19,5 milljarða kr. í tiltekin fyrirtæki úr Vestia-pakkanum, þ.e. Icelandic Group, Teymi, Vodafone, Skýrr, EJS, HugAx og Húsasmiðjuna, og Landsbankinn skuldbatt sig til þess að setja allt að 1,5 milljarða kr. að auki í Plastprent og Húsasmiðjuna. Framtakssjóðurinn keypti þetta á 19,5 milljarða kr. en Landsbankinn lét þessi fyrirtæki og 1,5 milljarða kr. að auki.

Á sama tíma kaupir Landsbankinn hlut í Framtakssjóðnum fyrir 18 milljarða kr. Þetta minnir nokkuð á viðskipti sem við sáum hér á því tímabili sem við viljum helst ekki vita af.

Virðulegi forseti. Kaupin áttu að ganga í gegn í byrjun október en hafa ekki enn gengið í gegn. Hæstv. ráðherra hefur reynt að segja í viðtölum við fjölmiðla að hann megi ekki hafa nein afskipti af málum, megi ekki hafa afskipti af því þegar stofnun sem undir hæstv. ráðherra heyrir brýtur verklagsreglur eða samþykkir það og það er farið á skjön við lögin, með þeim rökum að hann megi ekki hafa dagleg afskipti af stofnuninni.

Ég las upp úr lögunum áðan ákvæði um að hann megi koma með fyrirmæli og því er kannski eðlilegt að menn spyrji hvort ekki sé eðlilegt að hæstv. ráðherra komi með fyrirmæli til stofnunarinnar um að hún fari eftir lögum um hana.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra sjö spurninga:

1. Vissi ráðherra af kaupum Framtakssjóðsins áður en þau fóru fram?

2. Samþykkti ráðherra að verklagsreglum væri ekki fylgt eftir eða gerði ekki athugasemdir við það?

3. Er ráðherra sáttur við að ekki hefur verið farið eftir verklagsreglum við söluna?

4. Samþykkti ráðherra eða gerði ekki athugasemdir við að Landsbankinn keypti sig inn í Framtakssjóðinn?

5. Finnst ráðherra eðlilegt að Bankasýslan, sem heyrir undir hann, fari á skjön (Forseti hringir.) við lög sem um hana gilda og samþykki að Landsbankinn fari ekki eftir verklagsreglum?

6. Er ráðherra meðvitaður um að stofnunin hafi brotið fleiri lög og verklagsreglur?

7. Nú (Forseti hringir.) er enn hægt að fara eftir verklagsreglum og lögum í þessu tilviki, mun ráðherra beita sér fyrir því að stofnunin geri það?