139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[16:03]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna og get tekið undir margt sem hér hefur komið fram. Það er ljóst að Framtakssjóður Íslands undir stjórn lífeyrissjóðanna hefur keypt eignarhaldsfélagið Vestia. Vestia heldur utan um fyrirtæki sem Landsbankinn hefur fengið í fangið og það er ekki vegna þess að þau hafi verið sérstaklega stöndug. Þetta eru áhættufjárfestingar og að mínu mati er það algjörlega ólíðandi að stjórn sjóðanna sé að véla með lífeyri almennings með þessum hætti.

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur telur að lífeyrissjóðirnir hafi tapað á bilinu 600–800 milljörðum kr. á áhættufjárfestingum í hruninu. Eign sjóðanna núna er því áætluð aðeins um 1.800 milljarðar kr. þótt sú tala fáist ekki staðfest.

Í umræðum um skuldavanda heimilanna hefur verið rætt um aðkomu lífeyrissjóðanna og stuðning þeirra við Íbúðalánasjóð. Til þess þyrfti um 4% af eignum sjóðanna. Það er hlægilega lág tala miðað við hvað sjóðirnir hafa þegar tapað miklu á áhættufjárfestingum og það er óþolandi að stjórnir sjóðanna, skipaðar fulltrúum atvinnulífsins, haldi áfram að nota fjármuni almennings í áhættufjárfestingar. Sú staðreynd að Samtök atvinnulífsins og aðrir atvinnurekendur eigi fulltrúa í sjóðum lífeyrissjóðanna hvetur að mínu mati til mun meiri áhættusækni en eðlilegt er.

Það að þetta gerist allt saman með blessun Bankasýslu ríkisins er í besta falli lélegur brandari.