139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[16:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að þingmönnum sé mikið niðri fyrir í þessari umræðu og að þeir gagnrýni harðlega þau viðskipti sem við ræðum hér. Raunar virðist hæstv. fjármálaráðherra nú vera sá eini sem eftir er sem enn treystir sér til að verja þessi viðskipti og lýsa því yfir að vandað hafi verið til verka, en það er auðvitað mjög margt gagnrýnisvert við viðskiptin.

Í fyrsta lagi er mjög ámælisvert að salan á Vestia skyldi ekki fara fram í gegnum opið tilboðsferli eins og verklags- og starfsreglur kváðu á um. Að þverbrjóta reglurnar er ekki síst ámælisvert í ljósi þess að aðilar þessara viðskipta eru ríkisbanki og hálfopinber aðili, lífeyrissjóðirnir, fyrir utan það að viðskiptin áttu sér stað undir eftirliti Bankasýslunnar, sem er einnig opinber aðili. Þetta sýnir auðvitað að það er ekkert að marka tal ríkisstjórnarinnar um opin og gegnsæ og ný vinnubrögð þar sem allt væri uppi á borðinu. Og ég spyr: Var það ekki Steingrímur J. Sigfússon sem ætlaði að opna öll reykfylltu bakherbergin og lofta þar út? Mér sýnist að hæstv. fjármálaráðherra hafi þvert á móti skellt þeim í lás og sett slagbrand fyrir dyrnar. (Gripið fram í.) Allt þetta er auðvitað til merkis um að menn hafa ekkert lært.

Í annan stað er mjög ámælisvert eftir allt sem á undan er gengið að fjármunir lífeyrissjóðanna, sem eru fjöregg þjóðarinnar, séu nýttir í áhættufjárfestingar sem hæstv. ráðherra kallar núna samvinnuverkefni. Ég spyr: Hafa lífeyrissjóðir og lífeyrisþegar ekki þurft að þola næg áföll? Við skulum gera okkur grein fyrir því að samanlagt tap þessara félaga sem fylgdu með í kaupunum nam 884 milljörðum kr. á síðasta ári.

Í þriðja lagi munu þessi viðskipti skerða samkeppni á markaði. Maður hlýtur að spyrja: Hvar á þetta síðan að enda? Hvar mun Framtakssjóðurinn næst drepa niður fæti? (Forseti hringir.) Stendur t.d. til að Framtakssjóðurinn kaupi Haga, eins og sögusagnir hafa verið um, og að lífeyrissjóðirnir muni þar með hefja innreið sína á matvörumarkaðinn? (Forseti hringir.) Verða þá endurtekin þessi vinnubrögð sem við höfum verið að fjalla um hér?