139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[16:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það ríkir mikil tortryggni í þjóðfélaginu um starfsemi fjármálafyrirtækja og meðferð þeirra eigna sem stofnanirnar hafa yfirtekið. Það sjáum við svo greinilega í þessari umræðu og þeirri umfjöllun sem hefur verið í fjölmiðlum og samfélaginu um þetta tilboð lífeyrissjóðanna í eignir Vestia.

Það er mín skoðun að ef við ætlum að byggja þetta samfélag upp sé nauðsynlegt að allt endursöluferli þeirra eigna sem bankarnir hafa yfirtekið sé lýðræðislegt og gagnsætt. Allir verða að eiga jafna möguleika til þátttöku og sitja við sama borð við tilboðsgerð í þær eignir sem fjármálastofnanir ætla að selja á hverjum tíma.

Þess vegna get ég ekki annað en tekið undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í viðtali við Viðskiptablaðið þar sem hann talar um að það sé mjög erfitt að skilja af hverju þessi stóra eign hafi ekki verið auglýst og sett í opið söluferli eins og hafi verið talað um og gefin fyrirheit um. Það er talað mikið um gagnsæi varðandi sölu á þeim fyrirtækjum sem bankarnir hafa yfirtekið, segir þingmaðurinn, og sérstaklega hvað varðar ríkisbankana. Það eru engin rök fyrir því að fara í ferlið svona. Bankinn hefði átt að gefa öðrum tækifæri til að bjóða í þessar eignir. Ef það hefði komið í ljós að sá eini sem hafði áhuga var Vestia hefði a.m.k. verið hægt að benda á að það hefði verið gert á opinn og gagnsæjan máta.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram þingsályktunartillögu um óháðan og gagnsæjan uppboðsmarkað fyrir eignir banka og fjármálastofnana sem hafa verið yfirteknar og vonumst til að fá að tala fyrir þeirri tillögu fljótlega. Við verðum að ná að eyða þessari tortryggni. Við höfum líka talað fyrir ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum og það er sama hugsunin þar á bak við, að við þurfum að tryggja gagnsæi þegar við erum að fara í gegnum afskriftir og endurskipulagningu fyrirtækja.

Síðan er önnur tillaga sem ég tel nauðsynlegt að skoða, hvort við eigum ekki að birta upplýsingar um (Forseti hringir.) afskriftir, um heildarskuldir, um verðmat á eignum eða rekstri og síðan skuldastöðuna eftir afskriftir, nákvæmlega eins og við leggjum fram upplýsingar um álagningarseðla einstaklinga og fyrirtækja. (Forseti hringir.) Það er spurning hvort við þurfum ekki að gera þetta líka til að eyða tortryggni.