139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[16:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það séu nokkur aðalatriði þessa máls sem sé ágætt að fara yfir. Ég vitna aftur til þess sem ég sagði, það er mikilvægt að menn hafi í huga að það er skýrt tekið fram í eigendastefnu ríkisins gagnvart fjármálafyrirtækjum, þar sem kemur að hlut Bankasýslunnar, að stjórn og starfsfólk Bankasýslunnar eiga hvorki að taka þátt í daglegum rekstri fyrirtækja né hafa áhrif á ákvarðanir þeirra. (Gripið fram í.) Enda kom jafnframt fram að Bankasýslan var fyrst upplýst um að af þessu samstarfi Landsbankans og Framtakssjóðsins kynni að verða daginn áður en tilkynnt var um þau. Það var hvorki borið undir Bankasýsluna né tók hún afstöðu til þess á nokkurn hátt fyrr en eftir á.

Í öðru lagi er mikilvægt að menn hafi í huga að eigendastefna ríkisins fjallar ekki um sölu einstakra eigna hjá fjármálafyrirtækjum, heldur um að þau skuli setja sér þar um verklagsreglur. Þær verklagsreglur telur Landsbankinn sig ekki hafa brotið.

Í þriðja lagi er kannski ástæða til að minna á að hér er mikið undir. Um 6 þús. starfsmenn eru hjá þessum fyrirtækjum og væntanlega eru hv. þingmenn ekki að tala á þeim nótum að þeir hefðu viljað að bankinn héldi á eignarhaldi þessara fyrirtækja um ókomna mánuði eða ár. Mér finnst lítið fara fyrir því að menn horfi á hina hlið mála sem er auðvitað sú og mikilvægi þess að þessi fyrirtæki séu endurskipulögð og síðan seld, skráð í Kauphöll, eins og væntanlega verður gert í þessu tilviki, eða komið með öðrum hætti út í lífið. Í því sambandi er rétt að það komi fram að Bankasýslan mun í ljósi eignarhalds Landsbankans nú á Framtakssjóðnum beina þeim tilmælum til sjóðsins að hann viðhafi verklagsreglurnar eins og bankinn ætti í hlut þegar að því kemur að þessi fyrirtæki verða skráð eða einhver einstök þeirra seld. Þá kemur að þeirri sölu þar sem slíkar verklagsreglur eiga að sjálfsögðu að vera í heiðri hafðar.

Ég tel, frú forseti, hér gerðan mikinn storm úr litlu (Forseti hringir.) og satt best að segja höfð uppi stór orð án mikilla innstæðna. Ég hefði haft trú á því að sjálfstæðismenn hefðu við aðrar aðstæður kannski (Forseti hringir.) fagnað því að einmitt hlutir af þessu tagi gerðust. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé eitthvað athugavert við það að lífeyrissjóðir leggi fram fjármagn til þátttöku (Forseti hringir.) í endurreisn íslenskra rekstrarfélaga, að styrkja fjárhag þeirra og koma þeim út í lífið. Ég er ekki svo þröngsýnn að ég vilji tala allt slíkt niður.