139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

bygging nýs fangelsis.

[16:20]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í fyrirspurnatíma fyrr í dag kom fram af minni hálfu að danskir arkitektar hefðu verið kallaðir hingað til lands vegna byggingar fangelsis í tíð Björns Bjarnasonar. Ég var ónákvæmur og misvísandi í orðalagi og bið ég Alþingi og hv. fyrirspyrjanda, Ólöfu Nordal, afsökunar á því.

Það er rétt að það komi fram að í tíð Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, var ekki unnið að undirbúningi vegna þess fangelsis sem nú er fyrirhugað að reisa. Íslensk yfirvöld hafa hins vegar unnið að hugmyndum um uppbyggingu í fangelsismálum um árabil. Árið 2008 var verið að undirbúa byggingu að Litla-Hrauni. Dönsku arkitekarnir sem hér um ræðir voru fengnir að því verkefni með sama hætti og þeir eru nú að vinna að undirbúningi með íslenskum yfirvöldum. Samningurinn sem nú er rætt um var hins vegar ekki gerður fyrr en í júní sl. Hér er um frumáætlun nýs fangelsis að ræða sem síðan mun ganga til útboðs og vonir standa til að íslenskir arkitektar fái það verkefni, það er alla vega von mín.

Í fyrirspurnatímanum var líka spurt um tilkostnaðinn. (Forseti hringir.) Ég vil geta þess að gert er ráð fyrir því að hönnunarkostnaður nýs fangelsis geti numið allt að 120 millj. kr. og að vinna arkitekta geti numið allt að 50 milljónum af því. Samningurinn við þessa dönsku (Forseti hringir.) arkitekta nemur hins vegar innan við 5 millj. kr.