139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

26. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það liggur auðvitað enginn vafi á því að kjarni efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar felst í samstarfi íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Núna er nýlokið þriðju endurskoðun þeirrar stefnu. Það er því ljóst að sú efnahagsstefna sem þar birtist er í rauninni stefna núverandi ríkisstjórnar, ekki fyrri ríkisstjórnar eins og stundum hefur verið látið í veðri vaka, því að þetta eru samningar á milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og núverandi stjórnvalda hér á landi.

Þegar maður les þá samninga fer ekkert á milli mála að um er að ræða skuldbindingar. Ég get tekið dæmi úr yfirlýsingu fyrr á þessu ári um að lánafrystingar yrðu afnumdar síðar á þessu hausti. Það varð síðan tilefni til umræðu í þinginu en ljóst er að hæstv. ríkisstjórn var með því búin að gefa ákveðin fyrirheit um með hvaða hætti tekið yrði á þessum málum.

Enn þá nýrra dæmi er yfirlýsing frá 13. september síðastliðnum sem fylgir þriðju endurskoðuninni, sem ég geri að umtalsefni í tengslum við þær fyrirspurnir sem ég hef lagt fyrir hæstv. forsætisráðherra, en þar fram kemur að búið sé að útiloka almennar skuldaniðurfellingar. Engu að síður hefur farið fram heilmikil umræða upp á síðkastið um hvort hluti af þeim efnahagsúrræðum sem boðuð hafa verið gagnvart heimilunum í landinu muni snúast um almennar skuldaniðurfellingar þegar fyrir liggur að búið er að lýsa því yfir með undirskrift hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, hæstv. forsætisráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjóra að þetta sé út af borðinu.

Til þess að samkomulag stjórnvalda, endurskoðun þeirra, og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fái gildi þarf að samþykkja það í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta er í raun stefnumótun og markar efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá að vita hvernig að þessari stefnumótun er staðið hér innan lands.

Við höfum tekið eftir því ýmsir ráðherrar hafa talað nokkuð frjálst um þetta samstarf eins og það komi þeim ekki að nokkru leyti við. Sama á við um einstaka þingmenn stjórnarflokkanna. Það er mjög athyglisvert því að hér er ekki um að ræða neitt puntuplagg. Hér er um að ræða grundvallaratriði í sjálfri efnahagsstefnu ríkisstjórnar Íslands.

Þess vegna tel ég mjög brýnt að fá um það fregnir hvernig staðið er að stefnumótuninni. Þetta er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar í heild. Um er að ræða skuldbindandi yfirlýsingar í ýmsum tilvikum, eins og ég hef þegar rakið, og þess vegna hlýtur sú spurning að vakna hvort efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar njóti stuðnings þingmanna og eftir atvikum ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Því hef ég spurt hæstv. forsætisráðherra í þremur liðum um það hvernig staðið hafi verið að samþykki íslenskra stjórnvalda á þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.