139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

26. mál
[16:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel að samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um efnahagsáætlunina hafi í öllum meginatriðum gengið vel og eins samráðið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við erum nú í samræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn m.a. út af þeim hugmyndum sem hafa verið uppi á borðinu að því er varðar skuldavanda heimilanna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fulltrúar hans vita af þeim hugmyndum sem hafa verið uppi og við höfum rætt þær við þá. Þó að skrifað hafi verið undir þriðju endurskoðunina eins hv. þingmaður lýsti er það ekki í gadda slegið að ekki sé hægt að endurskoða ýmis atriði miðað við breyttar aðstæður hverjir sinni ef það er gert í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er það sem við höfum gert, við höfum átt samtöl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hugmyndir sem verið hafa uppi að því er varðar skuldavanda heimilanna.

Varðandi það að ljúka samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn 30. nóvember hefur það ekki komið til tals. Við höfum farið yfir stöðuna, samstarf okkar við sjóðinn hefur styrkt verulega gjaldeyrisforðann. Við getum hvenær sem er lokið samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ef við teljum rétt að gera það. Ég vil ekki útiloka það, miðað við fjórðu endurskoðunina sem nú er í gangi og verður væntanlega lokið í desember, að menn skoði hvort við þurfum á öllum þessum lánum að halda eða ekki og fari almennt yfir stöðuna. En það hefur engin ákvörðun verið tekin um það á þessu augnabliki að ljúka samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um mánaðamótin, eins og hv. þingmaður spurði um.