139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

reglugerð um gjafsókn.

128. mál
[16:43]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir spurningar hennar um mjög mikilvægt málefni. Spurningarnar eru nokkrar, í fyrsta lagi hvort til standi að hækka tekjuviðmið til gjafsóknar.

Samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar er miðað við að stofn til útreiknings tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjur umsækjanda nemi ekki hærri fjárhæð en 1,6 millj. kr. fyrir einstakling. Það er hærri fjárhæð en miðað var við áður sem voru svokölluð skattleysismörk. Engu að síður hafa dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu borist margar ábendingar um að viðmiðið sé lágt, jafnvel svo lágt að það geti talist hrein og bein ógn við réttarríki. Þeim athugasemdum er erfitt að vísa á bug og tek ég þar undir með hv. fyrirspyrjanda.

Ég hef þegar ákveðið að hækka viðmiðunina upp í 2 millj. kr. fyrir einstakling og 3 millj. kr. fyrir umsækjanda í hjúskap.

Einn vandi við gjafsóknarmál er sá að fjárframlag til málaflokksins er ákvarðað á fjárlögum fyrir komandi ár. Kostnaður getur hins vegar verið breytilegur ár frá ári og það er erfitt fyrir gjafsóknarnefnd að ætla að starfa eftir fastri fjárveitingu. Ekki er t.d. hægt að neita fólki um gjafsókn sem sækir um hana í nóvember, en veita hana í sambærilegu máli í janúar þegar ný fjárveiting liggur fyrir.

Þá hafa fjárveitingar til gjafsóknarmála á síðustu árum verið skornar niður í samræmi við almennan niðurskurð í ríkisfjármálum. Hins vegar ber að líta til þess að kostnaður vega gjafsóknarmála fellur yfirleitt ekki á ríkissjóð samstundis, heldur eftir eitt til tvö ár.

Rýmkun á gjafsóknarreglum ætti því ekki að leiða til aukins kostnaðar fyrr en eftir ákveðinn tíma og þá verður ríkissjóður vonandi betur í stakk búinn til að mæta mögulegum auknum útgjöldum.

Þessi mál eru nú öll til skoðunar í ráðuneytinu í ljósi þessara atriða. Vil ég ítreka að ég tek undir megináherslur hjá hv. fyrirspyrjanda.

Varðandi spurningu um að veita atvinnulausum undanþágu frá tekjuákvæðum vil ég vísa til svars forvera míns í embætti, Rögnu Árnadóttur, en hún svaraði sömu spurningu frá hv. þingmanni í byrjun þessa árs. Tilgangur gjafsóknar er að gera einstaklingi kleift að gæta hagsmuna sinna í dómsmáli ef fjárhag hans er þannig háttað að slíkt yrði honum ofviða, enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt má teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Við mat á því hvort skilyrðum þessum sé fullnægt fer fram heildarmat á fjárhag gjafsóknarbeiðanda. Ekki er þó eingöngu horft til tekna viðkomandi.

Í 8. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að veita megi einstaklingi gjafsókn þótt tekjur hans séu yfir viðmiðunarmörkum t.d. ef framfærslukostnaður er óvenjulega hár, ef ljóst er að tekjur viðkomandi hafa lækkað til frambúðar, t.d. ef viðkomandi hefur farið í nám, orðið atvinnulaus eða glímir við varanlega örorku, og í þriðja lagi ef málskostnaður verður fyrirsjáanlega hár miðað við efnahag umsækjanda. Þannig verður að leggja áherslu á að um er að ræða heildarmat á fjárhagsstöðu umsækjanda um gjafsókn en ekki eingöngu horft á umrædd tekjuviðmið.

Varðandi spurninguna hvort hægt sé að auðvelda á annan hátt og einfalda ferlið við að sækja um gjafsókn er því til að svara að umsóknir um gjafsókn koma oftast frá lögmönnum sem undirbúa málsókn eða málsvörn fyrir umsækjanda og þekkja umsóknarferilinn vel. Afar sjaldgæft er að einstaklingar sæki sjálfir um gjafsókn. Fái ég ábendingar sem benda til þess að það virki ekki nægilega vel er ég vissulega reiðubúinn að skoða þær gaumgæfilegar.

Ég kem nánar að frekari efnisatriðum í síðara svari mínu.