139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Reykjavíkurflugvöllur.

90. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Svo einkennilegt sem það nú er hefur Reykjavíkurflugvöllur oft verið bitbein og það hefur meðal annars borist í tal í þessum þingsal. Þetta er sérkennilegt í ljósi þess að vanalega er það þannig að borgir og bæir sækjast eftir því að fá svo mikilvægar samgöngumiðstöðvar staðsettar hjá sér vegna þess að það skiptir miklu máli fyrir viðkomandi sveitarfélög, skiptir miklu máli fyrir atvinnustarfsemi. Auðvitað á það sérstaklega við hér á höfuðborgarsvæðinu.

Innanlandsflugið er einhver mikilvægasta miðstöð innanlandssamgangna hér á landi og þó að skoðanir séu skiptar hefur það komið fram í skoðanakönnunum hvað eftir annað að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna vill að Reykjavíkurflugvöllur sé staðsettur þar sem hann er nú og verði áfram miðstöð innanlandssamgangna í landinu.

Fyrrverandi samgönguráðherrar, sem ég hef starfað með hér í þinginu, hafa allir verið mjög eindregnir í afstöðu sinni til þessa máls. Þar á ég við hæstv. samgönguráðherra, Halldór Blöndal, Sturlu Böðvarsson og Kristján L. Möller. Nú er kominn nýr samgönguráðherra, hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson, og því tel ég mikilvægt að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þessa máls sem hér hefur oft verið rætt og ég hef þegar nefnt.

Staðsetning Reykjavíkurflugvallar er enn mikilvægari nú en áður vegna þeirrar yfirlýstu stefnu núverandi ríkisstjórnar í heilbrigðismálum sem felur í sér stóraukið sjúkraflug, einhvers konar loftbrú sjúkraflugvéla á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

Annað mál sem þessu tengist er spurningin um samgöngumiðstöð. Það mál hefur mjög lengi verið að þvælast um borgarkerfið og stjórnsýsluna hér á landi. Eins og flestir vita átti þessi samgöngumiðstöð að vera fyrsta málið á dagskrá í samstarfi lífeyrissjóða og ríkisins um einkaframkvæmdir. Þá er þess að geta að hæstv. ráðherra var á sínum tíma í sérstakri viðræðunefnd við lífeyrissjóði um fjármögnun framkvæmda af þessum toga og er því væntanlega mjög kunnugur málinu.

Snemma síðastliðið vor var því lýst yfir af samgönguyfirvöldum, það var raunar fyrir sveitarstjórnarkosningar, að framkvæmdir vegna samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri gætu hafist á síðastliðnu sumri. Þá var því slegið föstu að hún mundi standa við Hótel Loftleiðir og þar gæti verið um að ræða framkvæmd upp á 1,3 til 1,4 milljarða kr. sem skapaði 80–90 heilsársstörf á framkvæmdatímanum sem yrði um eitt ár.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það hvar þetta mál standi núna. Hvað líður undirbúningi að framkvæmdum við samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll?