139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Reykjavíkurflugvöllur.

90. mál
[17:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Spurt er um afstöðu mína til innanlandsflugs og Reykjavíkurflugvallar. Ég vil byrja á því að taka fram að hér er um umdeilt efni að ræða og gengur afstaða manna þvert á flokkslínur. Það á við um minn flokk eins og aðra stjórnmálaflokka en afstaða mín er hins vegar skýr. Hún er sú að miðstöð innanlandsflugs eigi að vera á Reykjavíkurflugvelli. Þar ræður fyrst og fremst það að flugvöllurinn er tenging landsbyggðarinnar við ýmiss konar þjónustu í Reykjavík, ekki síst opinbera þjónustu eins og stjórnsýslu og heilbrigðisþjónustu. Þessi tenging gagnast bæði höfuðborginni og landsbyggðinni. Það vill oft gleymast hversu mikilvæg þessi starfsemi er Reykjavíkurborg, höfuðborgarsvæðinu.

Þá vil ég jafnframt nefna að gert er ráð fyrir flugvellinum á skipulagi Reykjavíkurborgar til ársins 2024. Ég tel því allar vangaveltur um færslu miðstöðvar innanlandsflugs ótímabærar.

Hvað líður undirbúningi að framkvæmdum við samgöngumiðstöð er frá því að segja að frá árinu 2007 hefur verið unnið að undirbúningi að samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll. Þáverandi samgönguráðherra fól Flugstoðum ohf., nú Isavia ohf., að vinna að verkefninu á grundvelli samkomulags við borgaryfirvöld. Markmiðið með samgöngumiðstöð er að bæta aðstöðu fyrir farþega sem fara þurfa um Reykjavíkurflugvöll með því að skapa einn vettvang fyrir fólk sem nota þarf innanlandssamgöngukerfið. Þannig yrði tengd saman þjónusta langferðabifreiða og strætisvagna og flug, bílaleigur og leigubílar á einum stað í höfuðborginni, jafnframt því sem gert er ráð fyrir margvíslegri annarri þjónustu í þessari miðstöð.

Gerðar voru greiningar á æskilegri stærð byggingarinnar út frá þörfum hagsmunaaðila. Unnið hefur verið með skipulagsyfirvöldum við Reykjavík að þróun verkefnisins og þurfti að huga að ýmsum þáttum. Margt var óklárað af hálfu skipulagsyfirvalda þegar þróun verkefnisins hófst, t.d. lega væntanlegrar vegtengingar og aðlögun lóðar að þeirri niðurstöðu. Aðlaga þurfti verkefni að verðlaunatillögu um skipulag Vatnsmýrarinnar, og aðlaga þurfti bygginguna að breyttum forsendum eftir efnahagshrun og fleiri þáttum.

Allt ferlið hefur verið unnið náið með skipulagsyfirvöldum í Reykjavík. Í apríl 2010 lá fyrir niðurstaða um tillögu sem auglýsa átti í deiliskipulagi fyrir lóðina. Jafnframt hafa verið undirbúnar viðræður um makaskipti og nýir fjármögnunarmöguleikar hafa verið kannaðir eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, Einars K. Guðfinnssonar.

Boltinn er nú hjá Reykjavíkurborg og er fyrirhugað að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hittist í þessari viku til að ræða næstu skref í málinu. Við höfðum ráðgert fund í síðustu viku en af honum varð ekki. Ég vonast til þess að þessi fundur fari fram næstkomandi fimmtudag og við fáum þá botn í þessi mál.

Mín afstaða í þessu máli er alveg skýr.