139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Reykjavíkurflugvöllur.

90. mál
[17:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Eitt af því sem hefur sárlega vantað í íslenska pólitík og ekki síst af hálfu ríkisstjórnar Íslands eru skýr svör í mikilvægum málum. Ég hélt satt best að segja, þegar hæstv. samgönguráðherra kom hér upp áðan, að hann ætlaði að skýla sér á bak við óljós svör um að málið væri umdeilt. En ég vil sérstaklega þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir mjög skýr svör sem ég tek heils hugar undir, þ.e. að innanlandsflugið verði áfram í Reykjavík. Það var ekkert japl, jaml og fuður af hálfu ráðherra. Það er gott að við höfum fundið bandamann í að halda innanlandsfluginu innan borgarinnar enda þýðir ekkert fyrir þá sem vilja veg höfuðborgarinnar sem mestan að tala bara um höfuðborgina á tyllidögum en vilja síðan ekki undirgangast þær skyldur sem höfuðborgin hefur að gegna gagnvart landinu öllu. Þá er ég ekki bara að tala um landsbyggðina heldur líka höfuðborgarsvæðið allt. Við í Kraganum viljum oft falla milli skips og bryggju þegar talað er annars vegar um landsbyggðina og hins vegar höfuðborgina.

Ef menn ætla í þá vegferð að flytja flugvöllinn, sem ég tel tóma dellu, þá er náttúrlega bara ein leið: Að fara með (Forseti hringir.) flugvöllinn í Keflavík. Við hefðum ekki efni á öðru.

Ég vil undirstrika þakkir mínar til hæstv. ráðherra. Ég stend með honum í því (Forseti hringir.) að halda innanlandsfluginu áfram hér í Reykjavík.