139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Reykjavíkurflugvöllur.

90. mál
[17:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör, óvenju skýr svör af hálfu ráðherra í þessari ríkisstjórn. Ég tek undir það að höfuðborg, ef hún ætlar að vera höfuðborg, á að hafa flugvöll. Þess vegna fagna ég eindregið málamiðlun hv. þingmanns Ásbjörns Óttarssonar sem lagði það til að ef flytja ætti flugvöllinn þá mundum við flytja höfuðborgina. Ég er svo sannarlega tilbúin til þess sem Keflvíkingur að beita mér fyrir því að sú yfirfærsla megi verða, þ.e. ef flugvöllurinn yrði fluttur.

Að öllu gríni slepptu þá er mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina alla og fyrir höfuðborgina að innanlandsflugið sé frá Reykjavík. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað að ef til stæði að flytja flugvöllinn er aðeins einn staður sem kemur til greina. Það er að sjálfsögðu Keflavík þar sem flugstarfsemi er öll fyrir hendi og væri auðsótt mál að bæta við (Forseti hringir.) innanlandsflugi.