139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Reykjavíkurflugvöllur.

90. mál
[17:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og segja að það er óskaplega góð tilfinning og mjög kærkomin tilbreyting að geta sagt að ég sé alveg sammála Ögmundi Jónassyni, hæstv. ráðherra. Það er ekki á hverjum degi sem það gerist og því um að gera að njóta þess andartaks.

Kjarni málsins er sá sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan. Innanlandsflugið verður að vera frá Reykjavík. Það er ekkert flóknara en það. Í fyrsta lagi vegna hagsmuna landsbyggðarinnar en einnig vegna hagsmuna höfuðborgarinnar. Við skulum ekki gleyma því að Reykjavíkurflugvöllur er forsenda gríðarlega mikillar atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Það er ein ástæða fyrir því að mjög margir íbúar höfuðborgarsvæðisins, ég vil fullyrða meiri hluti þeirra eins og yfirleitt hefur komið fram í skoðanakönnunum, er þeirrar skoðunar að ekki eigi að hrófla við staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Búið er að skoða alls konar möguleika. Einn var að setja flugvöllinn upp á Hólmsheiði en líka hefur verið rætt að setja þar fangelsi og alls konar aðra starfsemi. Þá yrði nú kannski erfitt að hola flugvellinum niður í nágrenninu. Það kom í ljós að veðurfarslegar aðstæður þar eru þannig að það mundi draga stórlega úr innanlandsflugi. Sama máli gegnir um aðrar hugmyndir, menn höfðu t.d. látið sér detta í hug að setja flugvöllinn og miðstöð innanlandsflugs í landinu niður í Hvassahrauni, skammt utan við Hafnarfjörð. Það kom í ljós að þar er annálað veðravíti. Þetta er auðvitað allt saman tóm della.

Varðandi samgöngumiðstöðina vil ég fagna því að hæstv. ráðherra ætli að eiga viðræður við yfirvöld Reykjavíkur. Þau hafa þessi mál núna í hendi sér. Nú er tæknilegum undirbúningi á uppbyggingu samgöngumiðstöðvarinnar nánast lokið. Þetta er skipulagslegt spursmál sem Reykjavíkurborg þarf að svara. Um leið þarf hún þá að svara því, ef ekki verður farið í þessa samgöngumiðstöð, með hvaða hætti eigi að byggja upp aðstöðu fyrir fólkið sem ferðast með innanlandsfluginu. Það er auðvitað öllum ljóst að sú aðstaða sem nú er boðið upp á, þótt hún sé ósköp notaleg á köflum, er ekki boðleg (Forseti hringir.) miðað við það að þarna fara hundruð þúsundir manna í gegn á ári hverju. (Forseti hringir.)