139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

gæðaeftirlit með rannsóknum.

69. mál
[17:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér fyrst og fremst upp til þess að leggja áherslu á að ég tel að það sé mikilvægt að við hlúum að hvers konar rannsókna- og vísindastarfsemi í landinu hvaða nafni sem hún nefnist. Ekki síst tel ég mikilvægt einmitt eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi að auka veg samkeppnissjóðanna almennt. Ég veit ekki betur en að það sé til að mynda áhersla sem núverandi hæstv. menntamálaráðherra hefur einnig tekið undir.

Ég tel líka mikilvægt að það sé strangt gæðaeftirlit með rannsóknum og styrkjum sem veittir eru úr sjóðum af þessu tagi. Slíkar styrkveitingar eigi eingöngu að byggjast á faglegu rýndu mati og það sé ekki heppilegt að styrkveitingar úr sjóðum af þessum toga séu á pólitískum forsendum, hvort sem það er með því að stjórn slíkra sjóða sé að einhverju leyti pólitísk og í raun og veru heldur ekki að ráðherrar taki ákvarðanir um úthlutanir úr sjóðum af þessum toga. Ég tel að það sé fyrirkomulag sem er gengið sér til húðar og það eigi fyrst og fremst að vinna þetta á faglegum (Forseti hringir.) grunni.