139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

gæðaeftirlit með rannsóknum.

69. mál
[17:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Sjálfsagt má alltaf betur gera en ég vísa því algjörlega á bug að ekki sé unnið mjög faglega af hálfu þessa sjóðs og að þeim verkefnum sem þar eru unnin. Hver ætti að koma fyrst með gagnrýnina? Það væri atvinnugreinin sem á þarna líka mest í húfi og hún ætti þá fyrst að koma með gagnrýnina. Hún leggur mikla áherslu á að þessum sjóði sé haldið sér og hann geti starfað með atvinnugreininni beint. (ÞKG: Af hverju …?) Hitt er svo það að …

(Forseti (ÁI): Ekki samtal í þingsal.)

Þessi sjóður starfar á fullkomnum samkeppnisgrunni, bæði hvað varðar umsóknir og faglegt eftirlit. Þeir sem halda öðru fram, eins og hv. fyrirspyrjandi, þekkja greinilega ekki til mála.

Hægt er að fara inn á heimasíðu sjóðsins og sjá hvernig þetta er. Hitt hvernig stjórnin er skipuð og annað því um líkt, þá er meiri hlutinn skipaður samkvæmt núgildandi reglum af atvinnugreininni og einn tilnefndur af ráðherra sem hefur þó ekki mikið vald í þessum efnum því að þetta er fagvinna unnin frá grunni. Þeir sem halda öðru fram vita ekki eins og ég segi hvað þeir eru að tala um.

Ég legg mikla áherslu á … (Gripið fram í.) Þetta er samkeppnissjóður þar sem er bæði samkeppni um fjármagn og líka um að standa sig gagnvart þeim sem unnið er fyrir. Það eru hinar fjölþættu greinar sjávarútvegsins og fyrir hann og með honum vinnur þessi sjóður. Og þó að ég hafi haft vissar efasemdir um hann á sínum tíma, af því að það var ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem setti reglugerð um þennan sjóð, að úthlutun ætti að vera með beinum hætti, tel ég samt eins og ég hef kynnst starfsemi sjóðsins núna að hann sé í góðum farvegi og menn megi vara sig á því (Forseti hringir.) að taka hann og setja undir einhverja (Forseti hringir.) heildarsjóðastofnun eða eitthvað slíkt. Hann starfar mjög náið (Forseti hringir.) með einmitt Rannís og Tækniþróunarsjóði og öðrum sjóðum (Forseti hringir.) en á sínum forsendum gagnvart (Forseti hringir.) atvinnugreininni.