139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur þessa umræðu og þá ágætu fyrirspurn til skriflegs svars sem hv. þingmaður lagði fram. Staðan er háalvarleg og hún er ekki bara alvarleg á landsbyggðinni því að þegar maður skoðar málið sér maður að það eru 170 störf í höfuðborginni sem munu líka leggjast af ef þessar breytingar verða að veruleika. Þar af sinna þeim konur í 83% tilvika. Á Suðurnesjunum eru það 78 störf og þau eru að 87% hluta unnin af konum. Það er verulega alvarleg staða sem upp er komin og eins og ég segi eru mörg störf í grunnþjónustu unnin af konum. Við verðum að verja grunnþjónustuna og þar af leiðandi þessi kvennastörf.

Eins og ég sagði áðan í svari mínu er hafin vinna við að skoða þessi mál. Þó að við reynum að halda okkur við rammann blöndum við dálítið annan kokteil þar sem við hugum að þessum málum.

Auðvitað eru konur manna duglegastar við að skapa sér störf en hér er allt of bratt farið og skorið of mikið. Við verðum á einhvern hátt að finna okkur leið til þess að spara og hagræða og nýta tækifærin til jákvæðra breytinga en eins og ég hef sagt áður verður að vera samráð við aðila heima fyrir, það verður að vinna að stefnumótun þannig að fjárlögin endurspegli þá stefnu. Ég held að það sé ekki spurning að við verðum að skoða þetta mál, við þurfum að fá niðurstöðu í heildardæmið.

Ég er mjög góð í algebru en það eru allt of margar breytur í þessu dæmi. Ég er fín með tvær óþekktar stærðir en þegar þær eru orðnar fimm eða sjö erum við komin í dálítið verri mál. Svo er þetta ekki bara kynjamál, þetta er ekki bara atvinnumál, þetta er byggðamál. Og það verður nú munur (Forseti hringir.) þegar við verðum komin inn í Evrópusambandið þar sem er alvörubyggðastefna. [Kliður í þingsal.]