139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að ég deili mjög áhuga Hreyfingarinnar á hvers konar lýðræðisbótum. Ég hef dáðst að þingmönnum hennar hér þar sem þau eru utan stjórnmálaflokka og hafa oft og tíðum sagst hvorki vera í stjórn né stjórnarandstöðu því að þau taki afstöðu til hvers máls fyrir sig. Þetta er út af fyrir sig mjög virðingarvert og við ættum kannski mörg að geta lært af því.

Nú er hins vegar ljóst að Hreyfingin er komin í stjórnarandstöðu. Hreyfingin vill ríkisstjórnina frá. Það er til mjög pottþétt aðferð til að setja ríkisstjórnina frá og það er að bera fram vantraust á hana á Alþingi. Hreyfingin hefur hins vegar ákveðið að gera það ekki, heldur sendi hún forsetanum bréf. Í bréfinu segir að forsætisráðherra eigi að skila umboði sínu til forseta Íslands. Ég veit ekki alveg hvernig forsetinn á að fá hana til þess, (Gripið fram í.) hvort hann á að snúa upp á höndina á forsætisráðherra eða hvað. Síðan á forseti að kanna hvort þingmeirihluti sé fyrir að verja slíka neyðarstjórn og síðan kemur sjö atriða listi um hvað eigi að gerast þegar neyðarstjórn verður sett á.

Þetta bréf mun hafa verið sent forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni, með beiðni um fund. Nú langar mig að spyrja einhvern þingmanna Hreyfingarinnar hvort þessi fundur hafi verið haldinn og hvað forsetinn hafi þá sagt.