139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær spurði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson í fyrirspurnatíma hvort framlenging á samkomulaginu við AGS hefði verið borin undir m.a. þingflokk Vinstri grænna. Ég skildi spurninguna þannig að hv. þingmaður vildi vita hvort ákvörðun um framlengingu hefði fyrir fram verið borin undir þingflokkinn. Svo var ekki, heldur kynnti hæstv. fjármálaráðherra framlenginguna eftir að búið var að taka ákvörðun um hana. Kynningin fór m.a. fram vegna þess að nokkrir þingmenn óskuðu eftir kynningu og rökum fyrir framlengingunni.

Það má koma hér fram að ég hef ásamt öðrum þingmönnum Vinstri grænna margoft mótmælt þessari málsmeðferð, þ.e. því að ákvörðun um framlengingu á samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur ekki verið rædd í þingflokkunum áður en tekin er lokaákvörðun um hana. Ég hefði talið það mun betri málsmeðferð að fá sem mesta umræðu, ekki bara meðal stjórnarliða, líka meðal stjórnarandstöðuflokkanna, um hvort það eigi að halda áfram þessu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að þá hefðu m.a. komið rök sem hafa verið þögguð hér niður um að það sé löngu orðið tímabært að ljúka þessu samstarfi. Við erum komin með gjaldeyrisvarasjóð sem er af þeirri stærð sem að var stefnt og jafnframt fælir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frá landinu erlent fjármagn vegna þess að hann er lánveitandi til vandræðalanda. Auk þess fórum við mjög dýra leið varðandi gjaldeyrishöftin. (Forseti hringir.) Við settum boð og bönn í stað þess að skattleggja útstreymi fjármagns.