139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[14:38]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfestur verði samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Alcans sem undirritaður var þann 13. október sl. og tengist áformum fyrirtækisins um stækkun og endurbyggingu álversins í Straumsvík. Um er að ræða áttunda viðauka við svokallaðan aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og fyrirtækisins sem á rætur að rekja til ársins 1966 og fjallaði þá um byggingu og rekstur álbræðslu og annarra mannvirkja í Straumsvík.

Ástæðuna fyrir gerð þessa áttunda viðauka við aðalsamninginn má rekja til þess að 15. júní á þessu ári var undirritaður nýr samningur á milli Landsvirkjunar og Alcans á Íslandi um orkusölu til álversins í Straumsvík. Sá raforkusamningur er tvíþættur, annars vegar er verið að endursemja um verð á núverandi orkusölu til álversins og hins vegar er samið um afhendingu viðbótarorku upp á 75 megavött vegna áætlaðrar framleiðsluaukningar álversins.

Miðað er við að hinn nýi raforkusamningur komi alfarið í stað núgildandi raforkusamnings milli sömu aðila og að sá síðarnefndi falli brott. Núgildandi raforkusamningur á milli Landsvirkjunar og Alcans er frá 1966 með gildistíma til september 2014. Hann er fylgiskjal A, virðulegi forseti, við áðurnefndan aðalsamning frá 1966 og er í aðalsamningnum vísað sérstaklega til raforkusamningsins. Sú breyting verður á með tilkomu hins nýja raforkusamnings að hann er alfarið ótengdur þeim gamla. Með þessari leið aftengjum við gamla raforkusamninginn aðalsamningnum frá 1966 og verður þá þessi samningur á milli fyrirtækjanna alfarið á viðskiptalegum forsendum. Með vísan til þess er nauðsynlegt, til að tryggja og undirstrika að hinn nýi raforkusamningur sé með öllu ótengdur aðalsamningnum, að gera breytingar á aðalsamningnum, þ.e. að afnema áðurnefnt fylgiskjal A sem er gamli raforkusamningurinn og hreinsa þannig aðalsamninginn af öllum ákvæðum þar sem vísað er í gamla raforkusamninginn. Er með frumvarpi þessu því lagt til að staðfest verði slík breyting á aðalsamningnum frá 1966 með lögfestingu þessa áttunda viðauka þess efnis við hann. Er sú meðferð til samræmis við þá sjö viðauka sem áður höfðu verið gerðir við aðalsamninginn.

Virðulegi forseti. Góðu fréttirnar við þetta er sú fjárfesting sem búið er að tilkynna og þessi samningur og þetta frumvarp tengjast. Búið er að tilkynna um fjárfestingu vegna framleiðsluaukningar álversins í Straumsvík og nýrra og verðmætari afurða með breytingu á framleiðslulínunni sem nemur nærri 60 milljörðum kr. og kallar á 620 ársverk á framkvæmdatímanum og er verkefnið þegar farið af stað. Ætla má að framleiðsla og útflutningur muni aukast um tæplega 40 þúsund tonn auk þess sem afurðir álversins verða verðmætari.

Virðulegi forseti. Til að mæta orkuþörfinni fyrir þetta verkefni er Landsvirkjun að hefja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Áætlanir gera ráð fyrir að heildarfjárfesting vegna Búðarhálsvirkjunar muni nema um 26 milljörðum kr. og að 600–700 ársverk skapist á byggingartíma. Samtals er því um að ræða 86 milljarða kr. fjárfestingu og um 1.300 ársverk á framkvæmdatímanum.

Virðulegi forseti. Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir. Ég hef áður sagt í þessum sal að þetta sé stærsta erlenda fjárfesting sem hefur komið hingað inn á borð frá því að bankahrunið varð í október 2008. Það er því fagnaðarefni. Ég tel að hér sé á ferðinni verkefni sem verði ísbrjótur fyrir önnur verkefni vegna þess að það sýnir að Ísland nýtur trausts, að þar sé gott að fjárfesta og það sé góður fjárfestingarkostur.

Fyrirtækið hefur starfað í Straumsvík, eins og áður hefur komið fram, frá 1966. Þetta er mjög mikil viðurkenning fyrir rekstur fyrirtækisins eins og hann er nú og hefur verið á undanförnum árum og áratug vegna þess að það er án efa mikil samkeppni innan samsteypunnar um að fá til sín verkefni og fjárfestingar. Það er því fagnaðarefni fyrir fyrirtækið og íslenskt efnahagslíf og samfélag að samsteypan skuli leggja í risafjárfestingu á Íslandi á þessum tíma.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn með frumvarpinu verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs en engu að síður er frumvarpið liður í að skapa verðmæti og fjölga störfum.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og umfjöllunar hjá hv. iðnaðarnefnd.