139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[14:52]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðgerðir segja sína sögu og ég lít svo á að þegar stórt alþjóðlegt fyrirtæki eins og það sem hér um ræðir tekur endanlega ákvörðun á þessum tíma, þ.e. sumarið 2010, að koma hingað með 60 milljarða fjárfestingu þá séu það býsna skýr skilaboð um að hér sé staðan að verða þannig að óhætt sé að fjárfesta. Maður fær ekki skýrari skilaboð, virðulegi forseti. Sú efnahagsáætlun sem núverandi ríkisstjórn hefur unnið eftir fór af stað í samstarfi við hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, þegar Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn fóru með ríkisstjórn landsins, og höfum við fylgt áætluninni sem lagt var upp með á þeim tíma að mestu leyti og er hún að skila sér í þeirri stóru fjárfestingu sem kemur núna. Þess vegna tala ég um ísbrjóta. Það er augljóst að fyrirtækið sem hefur starfað í alla þessa áratugi tekur ákvörðun um að vera hér áfram og festa enn frekar rætur. Það er það sem ég á við með ísbrjótum, virðulegi forseti. Ríkisstjórninni hefur tekist að skapa trúverðugt umhverfi fyrir svona fyrirtæki hér á landi.

Auðvitað má gera fjölmargt annað. Eitt af því, af því að hv. þingmaður spurði mig beint hvað ég væri að gera í þeim efnum, er að skapa aðstæður til að fá hingað fjölbreyttari flóru erlendra fjárfestinga en við höfum nokkurn tíma fengið. Það gerum við t.d. með lögunum sem samþykkt voru sl. vor um ívilnanir vegna nýfjárfestinga hér á landi og eru þær bæði innlendar og erlendar fjárfestingarnar sem þar um ræðir. Reglugerðin er klár og núna þurfum við að fara að formúlera (Forseti hringir.) pakkana þannig að við getum boðið fjárfesta velkomna til Íslands. Gott efnahagslíf og ívilnunarpakkarnir eru það sem mun á endanum (Forseti hringir.) skila erlendri fjárfestingu til landsins.