139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

fjarskipti.

136. mál
[15:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að unnið hefur verið að því að stoppa upp í þau göt sem hafa verið á GSM-sambandinu og hefur mikið áunnist í þeim efnum. Sífellt fleiri svæði hafa verið að opnast. Ég tek undir með hv. þingmanni að það skiptir okkur gríðarlegu máli sem vegfarendur og ekki síður og miklu fremur fólk sem býr á svæðum sem var utan GSM-sambands að fá það fært til betri vegar. Eins og ég gat um áðan er mjög mikilvægt að fjármunir sem kunni að innheimtast á nýjum tekjustofni fari til þess að þétta þetta kerfi.

Varðandi NMT-kerfið þá var lagt fram í þinginu skriflegt svar við fyrirspurn um þetta efni en ég treysti mér ekki til að fara út í tæknilegar umræður um það, mig skortir einfaldlega þekkingu á því til að gera það af einhverju viti. En við munum reiða fram nánari upplýsingar um það efni.