139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

fjarskipti.

136. mál
[15:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er ljóst að við öll sem tökum þátt í henni erum á þeirri skoðun að mikilvægt sé að landið allt sé í góðu símasambandi. Hér hefur verið upplýst að GSM-kerfið er farið að ná til landsins svo til alls en það eru gloppur og svæði án sambands. Þá hafa menn áhyggjur af því að skapast kunni óvissuástand eftir að NMT-kerfinu var lokað. Þetta eru hlutir sem ég ætla að fá nánari upplýsingar um. Ég legg áherslu á að við látum fjármuni sem okkur kunna að áskotnast vegna útboða á nýjum rásum renna til uppbyggingar kerfisins.