139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og að mestu leyti góð viðbrögð við þessari þingsályktunartillögu okkar sjálfstæðismanna. Það er ánægjulegt að sjá að menn eru tilbúnir til að skoða hlutina.

Mig langaði aðeins að velta upp nokkrum spurningum varðandi skuldavanda heimilanna. Nú skildi ég hv. þingmann á þann veg að hann féllist ekki á þær tillögur sem hér birtast þar sem þær innihalda ekki tillögu um flatar niðurfellingar. Ég vil fá að vita hvort þetta sé réttur skilningur hjá mér eða hvort hann telji að þær tillögur sem hér liggja fyrir séu ágætar en hitt þurfi að koma til aukreitis.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvað slík niðurfelling, eins og hv. þingmaður talaði hér fyrir, mundi kosta í heildina og hve stór hluti heimila landsins yrði enn í greiðsluvandræðum þrátt fyrir að slíkar flatar niðurfellingar kæmu til.