139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:23]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég kýs að kalla þetta almenna leiðréttingu sem kæmi til vegna þess að hér varð alger forsendubrestur í öllum lántökum heimilanna. Lántökurnar áttu sér stað í umhverfi þar sem bankamenn blekktu almenning og alþjóð og stjórnmálamenn blekktu almenning og alþjóð. Þetta verður að leiðrétta. Þetta er fyrst og fremst réttlætiskrafa. Ef sú réttlætiskrafa er ekki leiðrétt mun ekki gróa um heilt í íslensku samfélagi fyrr en eftir áratugi og það er mjög vont samfélag að búa við.

Þetta kostar peninga en þetta kostar miklu minni peninga en menn hafa talað um og þetta eru ekki fjármunir sem munu lenda á ríkissjóði og skattgreiðendum. Sýnt hefur verið fram á að lífeyrissjóðir munu bera einhvern kostnað af þessu, sem verður ekki umtalsverður. Gert er ráð fyrir því í millifærslu milli gömlu og nýju bankanna að þeir eigi fyrir þessu og sýnt hefur verið fram á að bankarnir eiga inni fyrir þessu. Helsta vandamálið er Íbúðalánasjóður. Þar hefur verið (Forseti hringir.) talað um að sá kostnaður fari yfir á lífeyrissjóðina. (Forseti hringir.)