139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:27]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að ég gagnrýndi ekki allar tillögur Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum. Það eru hér t.d. tvær tillögur sem ég er hlynntur. Önnur þeirra er um fyrningarfest eftir gjaldþrotaskipti og hin er um afnám stimpilgjalda. Þetta eru tillögur sem verða til mikilla bóta og munu koma lífi í fasteignamarkaðinn vegna þess að stimpilgjöldin af öllum fasteignaviðskiptum eru hamlandi fyrir eðlileg markaðsviðskipti með fasteignir.

Það leysir ekki vandann að lengja í lánum nema kannski örlítið og þá í skamman tíma. Þó að ekki verði allir skornir niður úr snörunni með almennri leiðréttingu mun stór hluti þjóðarinnar einfaldlega á ný hafa eitthvert eyðslufé og öðlast þá von að verið sé að fara eftir einhverjum réttlætisleiðum til að koma skikki á samfélagið aftur. Við skulum hafa í huga að það skiptir mjög miklu máli að fólk hafi það á tilfinningunni að það búi ekki í mjög óréttlátu samfélagi. (Forseti hringir.) Flestir sem skulda tóku lánin á allt öðrum forsendum en þeir búa við í dag.