139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera mér sammála um það að 50% lækkun á greiðslubyrði gefur auðvitað alls konar möguleika fyrir fólk í þeim vandræðum sem það er mjög margt í varðandi skuldir sínar. Slík lækkun á greiðslubyrði getur gert fólki fært að greiða niður óhagkvæmari lán og koma sér þannig í skjól þegar skuldbreytingunni léttir eftir þrjú ár. Þannig að það út af fyrir sig er í sjálfu sér jákvæð aðgerð þó að ég geri mér grein fyrir því að það leysir ekki vanda skuldugra heimila. Þær tillögur aðrar sem við erum með í því sambandi og sérstaklega sem lúta að atvinnusköpuninni eru hins vegar til þess fallnar að greiða úr vanda heimilanna.

Ég vil árétta það sem ég hef áður vakið athygli á að ríkisstjórnin er í rauninni alveg búin að slá út af borðinu hugmyndir um almenna skuldaniðurfellingu. Það var gert strax 13. september með bréfi þriggja ráðherra og seðlabankastjórans til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar var það einfaldlega sagt að fallið hefði verið frá öllum hugmyndum um almenna skuldaleiðréttingu gagnvart heimilunum í landinu.