139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þingmanni fyrir að blanda sér í umræðuna og fyrir að mestu leyti jákvæð viðbrögð við tillögu okkar. Það var þó eitt sem ég hnaut um í máli hv. þingmanns, og ekki bara núna heldur hef ég gert það áður, sem er að hann gerir athugasemdir við það að við sjálfstæðismenn séum að leggja fram tillögur í atvinnumálum sem leitt geti til deilna, eins og hann segir, sem geta valdið deilum.

Þá verð ég að segja við hv. þingmann að okkur er nokkur vandi á höndum vegna þess að í þessum tillögum erum við að leggja fram okkar sýn, okkar skoðun, okkar markmið og okkar leiðir. Hér eru fjölmargar tillögur, ekki bara þær sem hv. þingmaður nefndi varðandi stóriðjuframkvæmdir sem ég minni á að fóru í gegnum þingið í formi fjárfestingarsamnings á sínum tíma þannig að það var meiri hluti fyrir því. Hér eru aðrar tillögur sem ríkisstjórnin t.d. er ekki hlynnt, að draga til baka óhagkvæma skatta sem letja verðmætasköpun. (Forseti hringir.) Þessu er ríkisstjórnin á móti. Ég verð að hryggja hv. (Forseti hringir.) þingmann með því að ég mun (Forseti hringir.) ekki (Forseti hringir.) skirrast við að (Forseti hringir.) leggja fram slíkar tillögur (Forseti hringir.) þótt þær valdi deilum.