139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:35]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir misskilur mig þegar ég tala um að menn ættu kannski fyrst og fremst að huga að því að leggja fram tillögur sem valda ekki deilum. Það er einfaldlega svo að það er líklegra að þær muni ná fram að ganga á þinginu ef þær valda ekki deilum. Það er bara staðreynd. Þess vegna hef ég lagt það til með tilliti til uppbyggingar atvinnulífs að menn velti því fyrir sér að leggja fram tillögur sem nái fram að ganga. Hvað er búið að eyða mörgum árum í það á Alþingi Íslendinga að rífast um virkjanir, stóriðju, kvótamál og fleira án þess að það skili nokkru?

Þetta er einfaldlega hugarfarsbreyting sem ég held að menn verði að velta fyrir sér. Menn eiga ekki að hverfa frá því að leggja fram tillögur sem þeim hugnast þó að þær valdi deilum, en menn eiga jafnframt að hafa í huga hvað sé líklegt að nái fram að ganga og hvað ekki. Hér er ekki síst um að ræða hagsmuni almennings sem vantar atvinnu. Almenningur suður með sjó mun ekki fá atvinnu í álveri í Helguvík á næsta ári eða þarnæsta ári (Forseti hringir.) og sennilega ekki á árinu þar á eftir heldur.