139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég byrja á því að þakka þingmanninum fyrir mörg góð orð í garð tillagna okkar en ég verð að segja að ræðan sem ég flutti fyrir ekki nema 20–30 mínútum og þingmaðurinn hlustaði á, hefur misheppnast allhrapallega hjá mér. Þar gerði ég nákvæmlega grein fyrir því hvernig tekjuhliðin á tillögum okkar væri hugsuð. Jafnframt tók ég sérstaklega fram að það ætti ekki að fresta sparnaðarhugmyndum, við mættum ekki slá slöku við þar.

Hv. þingmaður talar um gamaldagshugmyndir, hann talar um gerðardóm í Svíþjóð o.s.frv., en það er ekki byggt á neinum rökum. Gerðardómur í Svíþjóð er löngu hættur, það er enginn gerðardómur þar. Núna er allt gert í frjálsum samningum. Varðandi gamaldagshugmyndir, hvað er gamaldags við að nýta orkuna? Ál er alls ekki gamaldagsiðnaður. Ál er fullgildur iðnaður sem skapar mikið af verðmætum störfum.

Varðandi Bakka hef ég verið algerlega hlynntur því að við reistum álver þar. Komin er fram hugmynd um hvernig hægt væri að standa að því verki. Það sem helst stendur í vegi núna er Landsvirkjun samkvæmt skipun frá hæstv. fjármálaráðherra, þannig er staðan núna.

Hvað varðar óhagkvæmu skattana, þ.e. afdráttarskattana, kolefnaskattana, skattlagningu hagnaðar milli landa, það er skattlagning vaxtagjalda. Nú hafa fjórar til fimm tegundir skatta til viðbótar verið innleiddar. Því miður er tíminn búinn (Forseti hringir.) en ég kem betur að því síðar.