139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:48]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að við ættum að fara saman í þá vinnu að skoða hvernig við gætum, ef við hefðum áhuga á því, skattlagt séreignarsparnaðinn og skoðað með hvaða hætti þeir fjármunir mundu nýtast best til uppbyggingar atvinnulífi. Þá grunnhugsun held ég að við séum sammála um. Það er bara spurning með hvaða hætti við leggjum í þá vegferð.

Almennar athugasemdir mínar við þessa tillögu lúta að því að mér finnst heldur bratt farið í að gefa eftir skatta án þess að tekjur ríkissjóðs séu svo vissar og það stendur. Mér finnst að við eigum ekki að nota skattlagningu séreignarsparnaðar til að taka þá áhættu.

Ég tel að við ættum að skoða mjög vandlega í efnahags- og skattanefnd þær skattatillögur sem við lögðum upp með og sem samþykktar voru og gerðar að lögum fyrir ári síðan. Við höfum nú eins árs reynslu af þeim sköttum. Við höfum heyrt gagnrýnisraddir úr atvinnulífinu um suma þeirra. Sumum þeirra er ég algerlega sammála, eins og hugmyndum okkar um kolefnisgjald eða kolefnisskatta. Ég tel að menn eigi að borga fyrir þau verðmæti sem þeir ganga á. Mér finnst það spurning um umhverfismál. Þess vegna er ég sammála því að aðrir skattar eru umdeilanlegir og væri athyglisvert að sjá hver reynslan hefur orðið af þeim.