139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:50]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að varað var við óhagkvæmum sköttum og í fjármálaráðuneytinu sjálfu er jafnvel sagt að það hafi verið mistök að innleiða suma þá skatta sem voru innleiddir. Við munum sjálfsagt fá vinnu í efnahags- og skattanefnd við að leiðrétta það sem búið var að vara við og ekki var hlustað á og hv. þingmaður greiddi atkvæði með.

Varðandi skattalækkanirnar, stjórnarþingmenn hafa í opinberum viðtölum og jafnvel úr ræðustól, eins og við heyrðum áðan, útfært þær skattalækkanir sem við ræðum hér. Í greinargerðinni tölum við um að 10 milljörðum verði varið til að lækka tekjuskatta heimila. Það er engin útfærsla.

Ein af grundvallarreglum skattahagfræðinnar er að stighækkandi tekjuskattar leiði til þess að hvatarnir til vinnu minnka. Því minni umbun sem maður fær fyrir erfiði sitt, því minna er maður tilbúinn til að leggja eitthvað á sig. Í eðli sínu er maðurinn bara eins og asni. Það er gulrótin sem hangir fyrir framan hann sem hann eltir, og því stærri og því betri sem gulrótin er því meira er fólk tilbúið til að leggja á sig nákvæmlega eins og asninn. Í eðli okkar erum við bara asnar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hafnar hann þeirri grunnsetningu skattahagfræðinnar að stighækkandi tekjuskattar letji fólk til vinnu, letji fólk til að leggja á sig?