139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:56]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerir að umtalsefni skattapólitík og minni endurheimtur skatta en gert var ráð fyrir. Fram kom á fundi efnahags- og skattanefndar í morgun að opinberir innheimtuaðilar hefðu gengið mun vægar fram við innheimtu opinberra gjalda allt frá því að efnahagshrunið dundi yfir okkur. Í nóvember 2008 gaf ríkisstjórnin út þá yfirlýsingu að vægar yrði gengið að einstaklingum og það hefur komið í ljós t.d. í þeim gögnum um opinberar innheimtuaðgerðir sem okkur voru sýnd á fundi nefndarinnar í morgun. Menn hafa gengið miklu vægar fram en áður. Menn líta svo á að það sé nauðsynlegt í ljósi aðstæðna en ljóst er að endurheimtur skatta hafa að einhverju leyti farið minnkandi af þeim sökum.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi að þær skattahækkanir sem við ræðum í núverandi fjárlagafrumvarpi snúa ekki nema að litlu leyti beint að einstaklingum þannig að menn reyna að ganga hægar fram gagnvart þeim. En það má líka spyrja sig hvar við værum stödd varðandi tekjur ríkisins og grundvöll fjárlagafrumvarpsins ef við hefðum ekki farið í skattahækkanir síðast, m.a. til að bregðast við minnkandi tekjum og minnkandi endurheimtum. Hvar værum við stödd þá? Hvað hefði þurft að ganga lagt í niðurskurði á heilbrigðisstofnunum eða í menntakerfinu ef við hefðum ekki hækkað skattana á síðasta ári og þar með ekki aukið tekjurnar meira en við gerðum?

Að öðru leyti tek ég undir þær hugmyndir sem almennt koma fram í hugmyndum Sjálfstæðisflokksins um að breikka skattstofnana og koma með örvandi aðgerðir til að styrkja atvinnulífið. Það finnast mér vera langbitastæðustu hugmyndirnar hjá sjálfstæðismönnum og er eitthvað sem ég vildi að kæmist í gegn og yrði að lögum á þessu þingi.