139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er væntanlega þannig með skattana að þetta er fært sem útistandandi skattkröfur og er haldið utan um það þannig. Þær eru alltaf umtalsverðar á hverjum tíma í ríkisbókhaldinu, óinnheimtar og útistandandi skattkröfur. Þetta breytir ekki um eðli þó að gengið sé frá uppgjöri skattkröfunnar eða skuldarinnar með tilteknum hætti eins og nú er farið að gera í því skyni að auðvelda mönnum að standa skil á henni og geta borgað hana, en í góðu samkomulagi þá um hvernig það verði gert. Ég tel að þessar aðgerðir og ráðstafanir hafi verið réttlætanlegar. Að sjálfsögðu eru þær ákveðin eftirgjöf af hálfu ríkisins í þeim skilningi að skilmálar þessara uppgjörsaðferða eru hagstæðir. Það er komið til móts við fyrirtækin í þeim efnum.

Já, að sjálfsögðu verða menn að breyttu breytanda fyrir áhrifum af hækkun óbeinna skatta eftir því sem þeir eru á ferðinni, hvort sem það er virðisaukaskattur, bensín eða hvað það nú er, en það er sá grundvallarmunur á að menn hafa þó meira val um hvernig eða hvort þeir borga þá skatta en hina sem eru lagðir á þá beint. Það sem þessi ríkisstjórn hefur gert, og hv. þm. Pétur Blöndal verður að viðurkenna, er að hún hefur notað þau tæki sem hún hefur sjálf og ræður yfir, þ.e. beinu skattana, til að hlífa lágtekjufólki við sköttum.