139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi umhverfisgjöld er það auðvitað þannig að í eðli sínu eiga þau að vera stýritæki og þau eiga að hvetja til orkusparnaðar og að menn færi sig yfir í vistvæna orkugjafa. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Þetta er gert með því að gera mengunina dýra og kolefnisgjaldið var hækkun. Kerfisbreytingin hins vegar varðandi umferðarskattana, þ.e. vörugjöld og bifreiðagjöld, er hlutlaus hvað tekjuöflun snertir, er hrein kerfisbreyting til að gera losun gróðurhúsalofttegunda að andlagi skattlagningar og er ekki ætlað að hafa tekjuöflunaráhrif í ríkissjóð.

Varðandi umræður um skattkerfið á Íslandi bið ég menn að muna hvar við erum stödd. Það var búið að fletja út skattkerfið, lækka og veikja beinu tekjuskattana þannig að það var komið úr öllum takti við hin Norðurlöndin. Og þó að það sé lítillega fært til baka og tekjujöfnunargildið aukið nokkuð þýðir ekki að tala eins og þar með muni himinn og jörð farast og allir muni hætta að vinna af því að þeir liggi í því að reikna út hvort þeir séu á lágum launum eða meðallaunum og hætti við að fara upp á meðallaun eða há laun af því að þeir þurfi að borga fáeinum krónum meira í skatt. Slíkur málflutningur gengur ekki upp og ef þetta væri rétt hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) eða hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur ætti enginn maður að vinna í Svíþjóð, enginn, af því að það er svo letjandi skattkerfi þar. En það er ekki þannig, það gengur bara vel í Svíþjóð núna, mikill hagvöxtur og atvinnuleysi á niðurleið.