139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði eingöngu að mér fyndist of gróf framsetning að gefa sér það sisona án þess að byggja það á tillögum og ráðgjöf t.d. frá Hafrannsóknastofnun að við gætum aukið þorskaflann um 35 þús. tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Það er langt umfram þá ráðgjöf sem farið var eftir síðast og hefur þann annmarka að ef við getum ekki staðið á því og rökstutt og útskýrt að við séum eftir sem áður að ástunda sjálfbærar og ábyrgar veiðar þá veldur það okkur miklu tjóni.

Það er líka vandasamt að taka mjög stóra ákvörðun um kvótaaukningu á einu bretti og senda þau skilaboð út á markaðina eins og ég geri ráð fyrir að hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra þekki manna best. Það er ekki víst að það skili eins miklum verðmætum og menn halda ef viðbrögð markaðarins eru þau að verðið lækki umtalsvert á móti. Það þarf að gera þetta yfirvegað og vandað.

Ég vil gjarnan að við getum eitthvað aukið t.d. þorskaflann og ég hef reyndar trú á því að stofninn sé að komast í það ástand að það sé að verða alveg réttlætanlegt að bæta þar einhverju við en við eigum að gera það ábyrgt og yfirvegað. Við þurfum helst að geta byggt það á traustri ráðgjöf þar sem við sýnum fram á að þetta sé eftir sem áður ábyrg nýting þó að það mundi væntanlega þýða samkvæmt líkönunum að við sættum okkur við eitthvað hægari uppbyggingu þorskstofnsins.