139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki alveg þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra var að gera grein fyrir varðandi þorskaflann og hvaða áhrif það kunni að hafa á mörkuðunum. Það sem við erum að leggja til eru hins vegar alveg fullkomlega ábyrgar tillögur. Við rökstyðjum það m.a. með skírskotun til þess mikla vaxtar sem hefur bæði verið í viðmiðunarstofninum og hrygningarstofninum og teljum þess vegna að það sé mjög ábyrgt og fullkomlega samrýmanlegt öllum varúðarnálgunum að gera það eins og við leggjum til.

Spurningin sem ég lagði fyrir hæstv. fjármálaráðherra var hins vegar um hvaða skoðun hann hefði á áformum hæstv. sjávarútvegsráðherra í þessum efnum. Hann er að leggja til aukningu. Það liggur þó fyrir að Hafrannsóknastofnun mun ekki leggja til að það verði gert á þessu fiskveiðiári. Hún setur fram sína ráðgjöf á grundvelli togararallsins sem fer fram á vormánuðum og það er alveg ljóst að Hafró mun ekki leggja til neina breytingu á miðju fiskveiðiári. Engu að síður boðar hæstv. sjávarútvegsráðherra þetta og gengur lengra, hann er þegar farinn að ráðstafa tekjunum fyrir ríkissjóð af auknum þorskafla.