139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég vil byrja á því sem sameinar okkur og þakka fyrir þær undirtektir sem hann hefur sýnt tillögum okkar. Um leið vil ég líka sýna samstöðu með honum varðandi góða þætti sem ríkisstjórnin hefur gert eins og átakið varðandi endurgreiðslu á vinnu, Allir vinna, og að útfæra enn frekar styrki til rannsóknar og þróunar. Við munum styðja hann í því.

Mig langar að undirstrika að við verðum seint sammála um að geta skattlagt okkur út úr kreppunni. Við verðum seint sammála um að auka jaðarskatta eða eignarskatta eða gera skattkerfið flókið. Þess vegna vil ég í fyrsta lagi spyrja um úttekt Fréttablaðsins í síðustu viku þar sem kemur sérstaklega fram að skattar hafa farið úr landi, ekki til fjarlægra skattaparadísa heldur til norrænu ríkjanna eins og Svíþjóðar. Það eru fyrirtæki sem hafa kannski ekki mikil umsvif en borga verulega í skatt, allt að því milljarð, og þær skatttekjur hafa farið til Svíþjóðar.

Ég vil gjarnan fá álit hæstv. ráðherra á þessu.