139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aldrei hefur nokkrum manni dottið í hug að við Íslendingar skattlegðum okkur út úr þessari hrikalegu kreppu. Það er undarlegur málflutningur að setja þetta í svona frasa. Það sem er hins vegar verið að reyna að gera er að ná tökum á miklum hallarekstri ríkissjóðs með blönduðum aðgerðum, vissum tekjuöflunaraðgerðum og auðvitað reynt að breyta áherslum í leiðinni, og hins vegar miklum niðurskurði sem er mjög þungbær og þjáningarfullur. Hann verður aðalþungi aðgerðanna á næsta ári samanber fjárlagafrumvarpið sem hér er til meðhöndlunar, það verður á þá hlið. Það er ekki eins og menn ætli að gera þetta allt skattamegin og dapurlegt að heyra slíkan málflutning. Þegar upp verður staðið má alveg færa rök fyrir því að jafnvægið hafi raskast um of, niðurskurðinum í hag, þ.e. hann sé að verða hlutfallslega þyngri eða meiri en við jafnvel ætluðum okkur vegna þess að sumpart hafa þær aðgerðir reynst bitmeiri og markvissari en menn höfðu reiknað út.

Varðandi skatttekjur sem tapast úr landi vegna þess að einhver erlend fyrirtæki skriðu hér í skjól á ákveðnum árum þá hefur það gerst í tveimur, þremur tilvikum svo ég þekki til en við skulum hafa í huga að menn fengu miklar skatttekjur á móti vegna breytinga sem tengdar eru sömu málum.