139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað fáum við fjármálaráðherra Vinstri grænna, sósíalista hér í landi, seint til að viðurkenna að skattbreytingar vinstri stjórnar í landinu hafa leitt til þess að skattkerfið er flókið. Skattyfirvöld viðurkenna núna að svört atvinnustarfsemi, og fjármálaráðherra getur ekki komið sér undan því, er að aukast. Það er fyrst og fremst út af því að skattkerfið sem vinstri stjórnin hefur komið á er flókið og ógegnsætt. Verið er að fæla skatttekjur frá og gera allan niðurskurð um leið erfiðari.

Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra hvað hann segir við tillögum okkar sjálfstæðismanna annars vegar um að hlífa sérstaklega menntakerfinu, þ.e. rannsóknum og þróun. Í ljósi reynslu m.a. norrænu ríkjanna eins og Finnlands þá stuðlum við að því að koma okkur fyrr út úr kreppu með því að hlífa rannsóknum og þróun. Hins vegar vil ég fá álit ráðherra sérstaklega á því hvort hann styðji að haldið verði áfram með breytingar á menntakerfinu sem leiða (Forseti hringir.) m.a. til bættrar afkomu ríkissjóðs og þjóðfélagslegs sparnaðs með því að stuðla að styttingu námstíma til stúdentsprófs.