139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég láti menntamálaráðherra eftir að svara hinum menntapólitísku þáttum.

Varðandi fjármálin höfum við reynt að gera nákvæmlega það sem hv. þingmaður nefndi. Við hlífum menntuninni talsvert meira við niðurskurði en almennri stjórnsýslu og almennum rekstri. Þetta gerum við annað árið í röð þar sem bæði háskólar og sérstaklega framhaldsskólastigið núna fær á sig mun vægari aðhaldskröfu. Við höfum nánast alveg hlíft samkeppnissjóðunum. Þeir eru mjög mikilvægir og áhersla vísindasamfélagsins er að verja þá eins og nokkur kostur er þannig að sú kjölfesta sem þeir eru í rannsóknar- og þróunarstarfi verði varin. Það hefur tekist.

Við höfum lagt skólunum til, til hliðar við niðurskurðinn, aukið fé til að mæta fjölgun nemenda eins og við höfum mögulega getað, að vísu ekki reiknað á fullu verði, af því að skólarnir hafa tekist á við að taka inn aukinn fjölda nýrra nemenda með kannski 60 af hundraði af fullum nemendaígildum. Það hafa bæði háskólar og framhaldsskólar í einhverjum mæli gert. Menn hjálpast því að við að reyna að búa til þau skilyrði að t.d. ungt fólk sem ekki á kost á vinnu noti tímann frekar til náms. (Forseti hringir.) En að sjálfsögðu höfum við ekki getað látið þennan stóra geira algerlega ósnortinn. Hann hefur orðið að taka á sig byrðar í einhverjum mæli eins og allt annað.