139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ágæta ræðu. Mér fannst ræðan reyndar litast dálítið mikið af svartsýni eins og því miður virðist móta hug allra stjórnarliða, mér sýnist það, ég vildi gjarnan sjá það öðruvísi. Það að lækka greiðslubyrði um 50% í þrjú ár er t.d. gert með þá framtíðarsýn að við náum okkur einhvern tíma upp úr þeirri stöðnun sem núverandi ríkisstjórn er að keyra þjóðina í með þessum sköttum.

Það kemur nefnilega í ljós að skattstefna vinstri stjórnarinnar, sem hv. þingmaður styður, hefur valdið því að skattstofnarnir lækka svo hratt að þeir gefa minni tekjur þrátt fyrir hækkun skatta. Skatttekjur ríkissjóðs eru minni og það stefnir allt í stöðnun, fólk flytur til útlanda, 10 manns á dag, 10 Íslendingar fara til útlanda á dag, þeir voru 900 á 90 dögum og við stefnum í stöðnun. Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki sjá. Hann ætlar að sjá að komin verði full atvinna og fullur gangur á allt saman eftir einhvern tíma, eitt eða tvö ár, eða þrjú ár, og þess vegna er þessi 50% lækkun virkilega aðstoð við heimilin.

Og hvað gera menn við tekjur sínar? Þeir borga skatta af þeim. Þeir eyða þeim í neyslu eða þeir leggja þá fyrir sem sparnað. Menn gera ekki annað en eitt af þessu þrennu. Ef skattarnir eru lækkaðir og ef greiðslurnar á lánunum eru lækkaðar fer restin í eyðslu, neyslu eða sparnað. Aukinn sparnaður, þegar Seðlabankinn er búinn að lækka vextina svona mikið, getur ekki annað en farið út í fjárfestingar, vonandi, þannig að mér sýnist að hv. þingmaður geti svarað þessu sjálfur.