139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:50]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið. Því miður sýna tölur um einkaneyslu og fjárfestingu að tilefni er til svartsýni. Þó að ég geri mér grein fyrir því að væntingar skipta miklu máli þá er líka mikilvægt að vera raunsær og taka á vandamálunum. Ein ástæðan fyrir því að bankahrunið varð svona stórt er sú að ekki var tekið á vandanum heldur var bara beðið, hugsað og rætt allt frá árinu 2007. Ég óttast, hv. þingmaður, að það sama sé að gerast með heimilin, að við séum að ræða, hugsa málið og telja hvert öðru trú um að staðan sé miklu betri en hún er meðan vandinn stækkar og stækkar. Ég held því miður að ekkert verði gert fyrr en blaðran eða vandamálið springur framan í okkur.

Ég vil reyndar geta þess að það eru fleiri svartsýnir en ég og aðrir stjórnarliðar. Í Bandaríkjunum er mikil umræða um að von sé á öðru hruni og það sé þá hrun raunhagkerfisins vegna þess að aðgerðir stjórnvalda fram til þessa hafa fyrst og fremst miðast að því að bjarga bankakerfinu og þær hafa ekki skilað sér í lækkun á skuldabyrði fyrirtækja og heimila sem eru að sligast undan greiðslu- og skuldabyrðinni.