139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt í ræðu hv. þingmanns eða andsvari sem ég vil benda á. Við breytum ekki hagkerfi heimsins eða Bandaríkjanna. Við breytum heldur ekki fortíðinni. Hv. þingmaður og stjórnarliðar margir eru stöðugt að tala í fortíðinni. Við breytum henni ekki. Við verðum að horfa til framtíðar og það sem við ráðum er t.d. skattlagning á heimilin til framtíðar. Og eins og ég gat um áðan gera heimilin þrennt við tekjurnar sínar: borga skatta, eyða eða spara, fleira er ekki til. Ef við lækkum skattana hlýtur eyðslan að aukast eða sparnaðurinn og ef peningarnir streyma ekki allir inn í Seðlabankann, eins og hefur gerst hingað til, neyðast bankarnir til að setja þetta út í lán, út í fjárfestingar. Það er einmitt það sem hv. þingmaður nefndi að það vantar fjárfestingu og reyndar eftirspurn. Ég tel reyndar að eftirspurnin eigi ekki endilega að vaxa en fjárfestingin verður að vaxa. Þá ætti hv. þingmaður að skoða frumvarp mitt um gagnsæ hlutafélög, líka til að skilja af hverju það er bóla í Bandaríkjunum.

Varðandi það hvenær við afnemum gjaldeyrishöftin. Til þess þarf í fyrsta lagi að vera afgangur af vöruskiptajöfnuði og viðskiptajöfnuði í einhvern tíma. Nú hefur verið afgangur af vöruskiptajöfnuði í töluvert langan tíma og það er mjög jákvætt og sýnir hvernig krónan hefur hjálpað okkur yfir þennan hjalla. (Gripið fram í: Ekki af viðskiptajöfnuði.) Ekki viðskiptajöfnuður, hann er reyndar mjög skrýtinn þegar verið er að afskrifa 6.000 milljarða, þá er viðskiptajöfnuðurinn mjög skrýtinn þannig að hann er illreiknanlegur sem stendur. En ég tel að fyrr en seinna, fyrr en menn telja, sé möguleiki á því að afnema gjaldeyrishöftin. Það á að gera samninga við krónubréfaeigendurna, það á að lokka þá sem eiga gjaldeyrisreikningana, sem eru upp á mörg hundruð milljarða í bönkunum, til að kaupa gjaldeyristryggð eða gengistryggð lán ríkissjóðs og þannig getum við leyst þessi vandamál með gjaldeyrishöftin.