139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Töluvert hefur verið rætt um umræðuhefðina á Alþingi. Margir hafa kvartað undan því að hún sé mjög slæm, hún einkennist af togstreitu og deilum. En ég tel að þær umræður sem hafa farið fram um þessa þingsályktunartillögu okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins afsanni það. Hér er um að ræða heildstæða tillögu sem tekur á mörgum þáttum, heimilunum, ríkisfjármálunum og atvinnulífinu, og sú umræða sem hefur farið fram af hálfu bæði stjórnarliða og stjórnarandstæðinga hefur verið þannig að ekki er hægt að segja annað en að menn reyni að nálgast málið með mjög jákvæðum og uppbyggilegum hætti. Því ber að fagna og ég tel það líka til marks um að þessi tillaga til þingsályktunar, sem er sannarlega ekki óumdeild, sé þó þannig úr garði gerð að hún geti lagt grunninn að efnislegri og málefnalegri umræðu eins og þeirri sem við höfum orðið vitni að núna fyrir helgina og það sem af er þessum degi. Því ber sérstaklega að fagna.

Kjarni þeirrar tillögu sem við ræðum felst í því að við reynum að líta heildstætt á viðfangsefnið. Menn hafa stundum lent í þeirri gildru að fjalla einangrað um þessi mál án þess að gera sér grein fyrir samhenginu sem er sannarlega á milli mála. Auðvitað er það svo að ef við erum t.d. ekki með heilbrigðan ríkisbúskap mun það hafa áhrif á hagkerfið að öðru leyti. Sama á við um stöðu heimilanna, hún ræðst mjög mikið af því hvernig okkur gengur að byggja upp atvinnulífið, hvort okkur tekst að búa til ný störf og hvers konar störf það eru. Þess vegna er svo þýðingarmikið þegar við ræðum þessi mál að það sé gert í því eðlilega og rökrétta samhengi. Hugmynd okkar sem liggur til grundvallar tillögunni byggir einmitt á þeirri hugsun að setja málið í rökrétt samhengi og leiða það fram: Með því að byggja upp atvinnulífið sköpum við í fyrsta lagi tekjur og atvinnu fyrir fólkið í landinu og í öðru lagi búum við til heilbrigðari og breiðari skattstofna fyrir ríkissjóð til þess að styðjast við í stað þess að fara þá leið sem núverandi ríkisstjórn hefur gert.

Einu sinni fann breskur stjórnmálamaður sem heitir Denis Healey upp lögmál sem hefur verið kennt við hann og er mjög einfalt. Það er svona: Ef þú ert staddur ofan í holu skaltu hætta að grafa. Fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra vitnaði til þess einu sinni og fékk miklar skammir fyrir en þetta lögmál blasir auðvitað við öllum. Ég tel að vandi ríkisstjórnarinnar núna sé að hún er komin ofan í holu og grefur ekki bara með skóflu heldur er hún komin með stórvirk vinnutæki til að grafa sig enn þá dýpra ofan í holuna og þá er engin von um að við komumst upp úr þessu, eins og við sjáum að er að gerast núna. Við erum komin í einhvern spíral sem færir okkur sífellt niður á við og þrátt fyrir að verið sé að vísa til einstakra þátta blasa því miður hinar tölulegu staðreyndir við. Til hvers er ég að vísa? Í nýjum Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem komu út fyrir fáeinum dögum, er ákaflega athyglisverð umfjöllun um fjárfestingarstigið í landinu. Þar kemur það fram, með leyfi virðulegs forseta:

„Fjármunamyndun“ — þ.e. fjárfestingin í landinu — „dróst saman um 51% á árinu 2009 og var hlutfall hennar af landsframleiðslu 13,9%. Þetta er lægsta hlutfall fjármunamyndunar frá árinu 1945 og tæplega 60% af því sem virðist samrýmast eðlilegri þróun á framleiðslugetu hagkerfisins til lengri tíma. Gert er ráð fyrir að hlutfallið lækki enn á þessu ári og verði rúmlega 13% en hækki svo smám saman eftir það.“

Þetta eru auðvitað hrollvekjandi tölur. Hvað er verið að segja okkur? Jú, það er verið að segja okkur að við höfum aldrei verið í jafnalvarlegri stöðu hvað varðar fjárfestingu atvinnulífsins, hvað varðar lífið og kraftinn í atvinnulífinu og við erum í núna, alveg frá stríðslokum. Við þurfum að fara aftur til heimsstyrjaldarinnar til að sjá einhverjar sambærilegar tölur. Þetta er mjög alvarlegt og hefur í fyrsta lagi þau áhrif, eins og við sjáum, að það dregur úr atvinnusköpun í landinu, fólk fær ekki vinnu og sú vinna sem er í boði er ekki eins vel launuð og það þarf á að halda. Það sem er síðan miklu alvarlegra til lengri tíma litið og eftir því sem samdráttartími í fjárfestingum verður lengri er að þeim mun minni líkur eru á að við búum við atvinnulíf til lengri tíma sem stendur undir væntingum okkar.

Þegar t.d. kemur í ljós að þessi fjárfesting, lægsta fjárfesting frá því í stríðinu, sé ekki nema 60% af því sem virðist samrýmast eðlilegri þróun á framleiðslugetu hagkerfisins er einfaldlega verið að segja okkur að við séum að grafa okkur enn þá dýpra ofan í holuna. Það veldur því að ríkissjóður er sífellt að reyna að elta skottið á sjálfum sér, ef þannig má að orði komast. Við þurfum að skera niður og skattleggja til að mæta samdrætti sem stafar af því að við beitum ekki nægilega örvandi aðgerðum fyrir efnahagslífið og þá sérstaklega atvinnulífið.

Við sjálfstæðismenn leggjum til ýmsar tillögur í þessum efnum. Við leggjum ofuráherslu á að bregðast við til þess að örva starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hvað erum við að tala um? Við erum í fyrsta lagi að tala um breytt skattumhverfi. Það fer ekkert á milli mála að skattumhverfið, eins og því hefur verið breytt, hefur m.a. haft neikvæð áhrif á litlu fyrirtækin. Í öðru lagi er mjög ámælisvert að liðin eru tvö ár frá því að kreppan skall yfir, haustið 2008, og enn þá hafa einungis sárafá fyrirtæki fengið varanlega úrlausn á málum sínum í gegnum bankakerfið. Þúsundir fyrirtækja eru enn þann dag í dag í nánast sömu sporum og þau voru þegar kreppan skall á fyrir tveimur árum. Þetta gerir það að verkum að við erum með nánast lifandi dauð fyrirtæki, þau geta haldið sjó, þau geta haldið aðeins áfram vegna þess að þau hafa fengið skuldbreytingu en hin varanlega úrlausn er ekki fengin. Það gerir það að verkum að þessi fyrirtæki fjárfesta ekki og við erum í sömu sporunum.

Síðan getum við auðvitað hugleitt að tvær stærstu útflutningsatvinnugreinar okkar, þ.e. sjávarútvegurinn og stóriðjan, eru báðar í þeirri stöðu að geta ekki fjárfest þó að þær fegnar vildu. Stóriðjan vegna þess að við vitum að a.m.k. hluti ríkisstjórnarflokkanna er á móti því að taka þátt í að örva, stuðla að eða a.m.k. lýsa yfir velvilja sínum gagnvart því að stóriðjufyrirtækin fjárfesti þannig að þau halda sér til hlés, það sjáum við á öllu og það birtist í tölunum sem ég gerði að umtalsefni. Síðan er það sjávarútvegurinn en honum er haldið í heljargreipum og hefur verið í fullkominni óvissu alveg frá þeim tíma sem ríkisstjórnin settist að völdum. Fyrningarhugmyndirnar gera það að verkum, eins og við vitum, að sjávarútvegurinn fjárfestir ekki, tekur ekki neina áhættu í þeim efnum vegna þess að menn treysta sér ekki til að gera það, það væri óábyrgt að fara í einhverjar fjárskuldbindingar sem menn vissu ekkert hvort þeir gætu staðið undir til lengri tíma.

Þetta hefur áhrif víða í samfélaginu, eins og við vitum, á nýsköpun, á iðnaðarstarfsemi eins og t.d. slippana og þar fram eftir götunum. Ég er alveg sannfærður um að einföld yfirlýsing um að horfið yrði frá þessari leið og tekin upp sú leið sem varð niðurstaðan í endurskoðunarnefndinni um fiskveiðistjórnina mundi í sjálfu sér, án þess að fimmeyringur kæmi úr ríkissjóði, án þess að nokkuð annað væri gert en koma með einfalda yfirlýsingu, leiða til þess að við mundum á fyrstu vikunni sjá þúsund ný störf spretta upp og er ég örugglega mjög varkár í því mati.

Sagt er að ekki sé nægilega vel staðið að málum vegna skulda heimilanna. Ég vakti athygli á því í andsvari áðan að þær tillögur sem við erum með eru í tíu tölusettum liðum og fela sannarlega í sér heilmikla bót fyrir heimilin í landinu. Í því sambandi tel ég t.d. að hugmyndin á bak við greiðsluaðlögun heimilanna, sem ríkisstjórnin hefur fylgt úr hlaði og gert að lögum, er hreint ekki galin og ekki slæm en allt er hins vegar gert með öfugum klónum. Ég hef þær upplýsingar að einstaklingar sem hafa t.d. farið í gegnum þessa skuldaaðlögun hafi orðið að koma með og reiða fram gögn og fylgiskjöl upp á fimmta hundrað blaðsíður í einstökum tilvikum, heila símaskrá þarf fólk að leggja fram af gögnum og fylgiskjölum, fólk sem er í miklum nauðum. Hvernig halda menn að þetta gangi fyrir sig? Eða þegar mönnum er hent út úr þessari skuldaaðlögun af því að þeir eru með óeðlilega háa símreikninga sem talið er til marks um að þeir hafi hegðað sér óábyrgt í fjármálum. Þetta er auðvitað til þess fallið að búa til enn þá meiri kreppu, grafa dýpri holu með stórvirkum vinnuvélum eins og ég sagði áðan.

Eitt vil ég jafnframt segja. Talað hefur verið um möguleikann á almennri skuldaniðurfellingu, ég er búinn að fara um það nokkrum orðum. Ég vil þó segja þetta: Við getum ekki útilokað að hér verði nýtt verðbólguskot. Það kann að fylgja því þegar við afnemum gjaldeyrishöftin að það verði tímabundið verðbólguskot. Ég tel og vil leggja það inn í umræðuna að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur, bæði þingið og ríkisstjórnina, að hugsa fyrir því með hvaða hætti við bregðumst þá við. Við þekkjum nú þegar af fortíðinni hvernig verðbólguskotið leikur fjárhag og efnahag heimilanna. Við þurfum að vera viðbúin nú í vetur og leggja fram hugmyndir, tillögur, um hvernig við bregðumst við. Við getum ekki látið það gerast aftur sem gerðist haustið 2008, að forsendubresturinn valdi því að efnahagur heimilanna fari úr böndunum og skuldirnar rjúki upp. Þess vegna hvet ég til þess og legg inn í umræðuna að menn hugsi fyrr en síðar hvernig bregðast þurfi við ef við lendum aftur í verðbólguskoti, hvort sem það verði jafnmikið, meira eða minna en við upplifðum eftir haustið 2008.