139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[18:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þetta innlegg í umræðuna. Ég er ekki talsmaður mikilla skattahækkana á Íslandi og kannski allra síst nú um stundir. Ég tel að það sé mjög mikilsvert að staðinn sé vörður um þann breiða hóp fólks sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið og að eignast börn, blessunarlega, í þessu landi. Með öðrum orðum, ég tel að fjölskyldufólk eigi ekki að verða fyrir barðinu á ofurskattlagningu nú um stundir og reyndar yfirleitt ekki. Þetta er einn mikilvægasti parturinn af samfélaginu, sá sem eyðir mestum peningum, sá sem býr til börnin og viðheldur samfélaginu og samfélagsgerðinni að mörgu leyti.

Ég er mjög hugsi yfir skattálögum á fyrirtæki og geld varhuga við ofsafengnum tillögum í þeim efnum. Sjálfstæðismenn hafa reyndar verið þeirrar gerðar að vilja lækka skatta hvort heldur er þensla eða kreppa og það út af fyrir sig er gagnrýnivert. En ég tel að fyrst og síðast þurfi að koma inn í skattkerfið á stundum eins og þessum einhvers konar hvata til þeirra fyrirtækja sem vilja bæta við sig fólki, einhvers konar hvata til fyrirtækja sem vilja auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar með áreiðanlegum hætti. Engu að síður vil ég ekki koma á því sem ég nefndi áðan, einhvers konar skattaörorku til þeirra fyrirtækja sem eru aflögufær. Ég hef lýst mig sammála mörgum þeim hugmyndum sem hafa komið hér fram frá félögum í mínum flokki og félögum í Sjálfstæðisflokknum, að það komi vel til greina að koma til móts við fyrirtæki á þessum tímum einkum til að fjölga störfum og til að auka framleiðni innan þessara fyrirtækja. Fyrirtækin eru það lífsakkeri sem íslensk þjóð þarf á að halda núna til þess að þriðja leiðin takist, að meiri peningar komi inn í þjóðarbúið, og þar þurfum við að standa vörð um fyrirtækin frekar en að leggja stein í götu þeirra.